SAGA FÉLAGSINS

FEBH 50 ára – gott að eldast í Hafnafirði

Viðtal: Olga Björt við Valgerði Sigurðardóttur formann FEBH

Það var 26. mars 1968 sem 20 framsýnir borgarar komu saman í Góðtemplarahúsinu við Suðurgötu til að stofna Styrktarfélag aldraðra. Tilgangur félagsins var að vinna að velferðarmálum eldri borgara í bænum. Í dag heitir það Félag eldri borgara í Hafnafirði, fjöldi félaga er kominn yfir 1500 og starfsemin er á þremur stöðum í bænum. Við ræddum við Valgerði Sigurðardóttur, 9. formann félagsins, en hún hefur sinnt því hlutverki undanfarin tvö ár. Styrktarfélag aldraðra var fyrsta félagið á landsvísu með velferð eldri borgara að leiðarljósi. Uppleggið hjá félögum þess var að byggja upp íbúðir fyrir aldraða, setja á stofn dvalarheimili og setja á laggirnar heimaþjónusta á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Þegar Hrafnista var opnuð 1977 var það meðal annars vegna áhrifa frá stjórn félagsins á þeim tíma að staðsetningin Skjólvangur í Hafnarfirði varð fyrir valinu. Svo komu Álfaskeiðshúsin sem byggð voru við Sólvang, seinna Sólvangsvegur 1-3. „Fyrsta stjórn félagsins lagði mikla áherslu á að fá Hafnarfjarðarbæ til samstarfs til að efla vegferð eldri borgara í bænum og gekk það eftir. Hugsið ykkur, fólk var farið að huga að þessum málaflokki fyrir 50 árum sem gerði það að verkum að róðurinn varð léttari fyrir þau sem tóku síðar við,“ segir Valgerður. En svo komu upp aðrar kröfur sem fylgja breyttu samfélagi. Lögð er áhersla á fjölbreytt félagsstarf þar sem allir geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Stjórn og varamenn á öllum fundum. Orðalagsbreytingar hafa orðið hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði í tímans rás og t.d. er ekki lengur notað orðið aldraðir, heldur eldri borgarar. Félagarnir eru á aldrinum 60 ára og eldri en fólk sem er á sjötugasta aldursári gefst kostur á kynningu á starfi félagsins samhliða réttindum sínum og möguleikum á vegum Hafnarfjarðarðbæjar. „Ég þekkti til þessa starfs frá því ég var bæjarfulltrúi hjá Hafnarfjarðarðbæ. Þá tengdist þessu málaflokkur mér mikið og ég hafði afskipti af honum þótt ég sæti ekki í ráðum sem höfðu beint með hann að gera. Ég kastaði mér þó út í djúpu laugina þegar leitað var til mín meðað taka að mér formannsembætti félagsins, því það var  mjög fjarri huga mínum á þeim tímapunkti,“ segir Valgerður, en alls níu eru í stjórn, með varamönnum, og lagt er kapp á að þeir séu allir séu vel upplýstir um starfsemi félagins.

Félagsandinn heilsubætandi. Valgerður segist hafa komist að því hversu öflugt fólk er í félaginu sem tilbúið sé að taka að sér nefndarstörf og  þátt í starfsemi félagsins. „Það er mikill kraftur hérna og áhugi. Flestir eru mjög iðnir við að viðhalda heilsu sinni með öllu því sem boðið er upp á hér. Aðalstarfið fer fram í húsnæði félagsins við Flatahraun sem er þétt setið alla daga.“ Þá sé það ómetanlegt sem fólk í sjálfboðavinnu sé til í að efla starfið og standa að viðburðum. „Félagsandinn er svo heilsubætandi, hann dreifir huganum, eflir heilavirknina og ég hef þá trú að hann hafi bætandi áhrif á ónæmiskerfið. Við reynum af fremsta megni að fá fólk til að koma því það er ekki gott að vera mikið einn heima. Það er svo nauðsynlegt okkur öllum að hafa verkefni þó svo að hin daglega vinna sé að baki. Það gerir okkur öllum gott að hafa okkur aðeins til, fara út fyrir rammann.“ Kosið er í tólf nefndir á aðalfundi og þær eru kjarni allrar starfseminnar. Valgerður segist aldrei heyra orð eins og „ég má ekki vera að því“ þegar einhver verkefni bíða félagsstarfsins. Starfsstúlkurnar sem vinna fyrir FEBH eiga mikið hrós skilið, þær halda vel utan um félagstarfið og móttöku félagsmanna og annarra gesta en sá þáttur er gríðarlega mikilvægur.

Húsnæði við Flatahraun breytti öllu. Af 1500 félögum segir Valgerður að séu margir virkir. „Það fara hundruð manns hér að meðaltali í gegn í hverri viku. Hreyfing er áherslan og erum við nú að vinna með Janusi Guðlaugssyni að bættri heilsu aldurshópsins. Aðrar áherslur en áður. Þá var farið í orlof á vegum bæjarins til að gefa sem flestum tækifæri til að ferðast. Það var mikil þörf fyrir því á sínum tíma og vel sótt. Fyrstu árin hittist fólk í Gúttó til að spila. Síðan tóku ýmis félagasamtök í bænum upp á því að skipta á milli sín fimmtudögum með því að halda úti opnu húsi fyrir félagið. Þau sáu um kaffi og með því og skemmtiatriði. Það varð mjög vinsælt.“ Nú sér félagið um opið hús en Lionsklúbbur Hafnarfjarðar sér um eitt kvöld á vetri. Félagið var leitandi að húsnæði um tíma, var með aðstöðu víða í bænum en starfsemin flutti svo að Flatahrauni um aldamótin síðustu sem breytti miklu hvað varðar framboð tómstunda hjá félaginu. Starfsemin er líka á Hjallabraut 33 og Sólvangsvegi 1.

Gott samstarf við bæinn. Valgerður segir að FEBH hafi átt mjög gott samstarf við formenn annarra félaga eldri borgara í Kraganum. „Við höfum hist og rætt okkar sameiginlega hagsmuni. Samstarf við Hafnarfjarðarbæ er líka mjög gott og bærinn hefur verið sterkur bakhjarl alla tíð. Sér t.d. um að borga leigu fyrir húsnæðið og greiðir laun starfsfólks.  Við höldum svo úti félagsstarfinu. Hafnarfjarðarbær er svo meðvitaður um tilvist sinna eldri borgara og á þessum 50 árum hefur þjónustan verið aukin til muna. Það er frítt á bókasafnið og frítt í sund. Bæjarfélagið hefur sett fram raunhæf tekjuviðmið  vegna lækkunar fasteignagjalda til aldurshópsins og bæjarstjórinn hefur farið vel ofan í saumana á Framkvæmdasjóð aldraða og gert athugasemdir við hvernig honum hefur verið ráðstafað.“

Fólki á að líða sem best á efri árum. Eins vel og haldið er utan um eldri borgara í Hafnarfirði er Valgerður verulega ósátt við aðkomu ríksins. „Við erum með tillögur að ályktunum á aðalfundi eldri borgara meðal annars um að fella niður virðisaukaskatt af lyfjum og við viljum sjá fleiri hjúkrunarrými í Hafnarfirði. Eldra fólk notar meira af dýrum lyfjum en þegar það var yngra. Þá er lífeyrissjóðurinn ekki ennþá sá lífssparnaður sem talað var um í upphafi. Það er því brot á öllu velsæmi að rýra lífsviðurværi fólks með því að lækka greiðslur til þeirra frá Almannatryggingum vegna sparnaðar sem einstaklingar voru skyldaðir til að leggja fyrir. Lífeyrissparnaðurinn á að vera trygging fyrir fjárhagslegu öryggi og bættum lífskjörum alveg sama hversu mikill eða lítill hann er. Viðmið velferðarráðuneytisins á að vera í takti við raunhæfa framfærslu allra þjóðfélagsþegna og eru þeir sem eldri eru ekki undanskildir. Það á að vera stolt hverrar þjóðar og metnaður að láta fólki líða sem best á efri árum. Á meðan Kjararáð getur samþykkt launahækkanir fyrir þá er hæstu launin hafa, þá er þetta hægt,“ segir Valgerður að lokum og hvetur alla 60 ára og eldri til að gerast félagar. Hún og hennar fólk muni leggja sig fram við að taka vel á móti þeim sem koma. Þar er alltaf heitt á könnunni.