UM FÉLAGIÐ
Ágrip af sögu félags eldri borgara í Hafnarfirði
Það var 26. mars 1968 sem 20 framsýnir borgarar komu saman í Góðtemplarahúsinu við Suðurgötu til að stofna Styrktarfélag aldraðra.
Tilgangur félagsins var að vinna að velferðarmálum eldri borgara í bænum.
Leitast hefur verið við að framfylgja þessu göfuga markmiði eftir því sem aðstæður hafa leyft. Fyrstu árin fór starfsemin fram í Góðtemplarahúsinu. Við fjölgun félaga og fjölbreyttari starf var flutt í Íþróttahúsið við Strandgötu. Félagið fékk síðan að njóta aðstöðunnar í safnaðarheimili Víðistaðakirkju um nokkurra ára skeið. Á þessum árum var leitast við að halda uppi öflugu starfi með aðstoð Hafnarfjarðarbæjar og frjálsra félagasamtaka í bænum.
Í byrjun árs 1997 tók bærinn á leigu húsnæði að Reykjavíkurvegi 52, sem félagið fékk til afnota næstu 5 árin. Með því skapaðist möguleiki á starfsemi alla virka daga, auk þess sem þáverandi formaður félagsins, Ragnhildur Guðmundsdóttur, var ráðin í hlutastarf til að sjá um rekstur hússins.
Við flutninginn á Reykjavíkurveginn var félagsheimilinu gefið nafnið Félagsheimilið Hraunsel, sem fylgt hefur félaginu síðan.
Það var 23. febrúar 2002, sem núverandi aðstaða á Flatahrauni var vígð og við það tækifæri tók Febh við rekstri glæsilegs félagsheimilis. Á Flatahrauni 3, er 550 fm. húsnæði á hæðinni auk 120 fm. í kjallara. Þar að auki hefur félagið aðstöðu fyrir útskurð í gamla Lækjarskóla og leikfimi í Bjarkarhúsi. Í dag er starfsemi alla virka daga frá kl. 09.00 til 17.00.
Aðstaðan er vel nýtt. Eldri borgarar kunna vel að meta það sem er í boði bæði til afþreyingar, föndurs, listsköpunar og annarrar starfsemi, eins og sjá má á dagskrá félagsins. Félagsstarfið hefur ekki verið byggð upp á nokkrum mánuðum, heldur hefur það mótast og þróast á s.l. áratugum.
Eins og áður kom fram var upphaflegt heiti félagsins Styrktarfélag aldraðra. En árið1990 var nafni félagsins breytt í Félag eldri borgara í Hafnarfirði til samræmis við nöfn félaga eldri borgara í öðrum sveitarfélögum.