SKÝRSLA STJÓRNAR 2021
Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2021
flutt á aðalfundi Félags eldri borgara í Hafnarfirði 24. mars 2022.
Þegar árið 2021 gekk í garð brann einna mest á okkur mannfólkinu að halda vel á sambandi hvort við annað. Við vorum búin að kynnast því að halda okkur heima og mun færra var um fundi og mannfagnaði. Til þess að verja okkur fyrir frekari einangrun urðum við á öllum aldri að taka tæknina í okkar hendur. Tölvan og síminn var þá nærtækast. Velferðartæknin var kynnt til leiks til að bæta aðbúnað heima og heiman. Hér í Félagi eldri borgara í Hafnarfirði var vakin athygli á tölvukennsluritum sem Landssamband eldri borgara gaf út um að þau væru komin á netið og hægt væri að hlaða þau niður. Facebooksíða félagsins og heimasíðan tóku til sín öll samskipti við félagsmenn. Fréttabréf var gefið út og félagið skráð á eina netsíðuna enn Instagram. Farið var í saumana á öllum netföngum félagsmanna til að vera í nánara sambandi. Eftir og í covid vorum við flest tæknivædd. Félagsmálaráðuneytið lagði sveitarfélögum til framlag til að létta undir með fólki á erfiðum tímum og tók Hafnarfjarðarbær þá ákvörðun meðal annara að setja á laggirnar námskeið hér í Hraunseli sl. sumar í notkun snjalltækja eldri borgurum að kostnaðarlausu. Þá gafst eldra fólki í bænum tækifæri til að fá aðstoð með snjalltæki sín.
Í janúar 2021 var staðan þannig að hér máttu aðeins vera 20 manns í hóp og allir að skrá sig í qi gong, zumba og línudans. Bókmenntaklúbburinn átti í vök að verjast þar sem krafa var um tiltekið bil á milli manna og handverkið og myndlistin ekki þar undanskilin. Gönguhópur frá Haukahúsi fór í gang og innanhúsganga í Kaplakrika. Skráning var tekin upp í pílu,billjard, bingó, pútt og vatnsleikfimi. Spilin, vist, bingó og bridge voru ekki leyfð fyrr en í mars. Þetta gerði það að verkum að starfsemin varð öll minni en vinnan á bak við hana til að halda henni úti varð mun meiri. Gaflarakórinn dró úr æfingum og að jafnaði mættu 25 til 30 félagar af 40 +a þ´r æfingar sem voru haldnar. Fresta varð jólatónleikum. Þorrablótið var fellt niður annað árið í röð og ball var ekki haldið fyrr en með haustinu.
Þegar svo slakað var á takmörkunum áður en þær voru hertar aftur var eins og félagsstarfið og öll afþreying hér yrði vinsælli og aðsóknin meiri. Það var ekki bara covid heldur fengum við líka gos á Reykjanesi og létu félagsmenn það ekki fram hjá sér fara. Þrjár rútuferðir voru farnar á gosstöðvarnar í maí og var farið með fjallarútu og var hraunið erfitt yfirferðar en gaman að sjá gosið þó ekki væri hægt að fara alveg að þvi. Þrátt fyrir gos og jarðskjálfta og 100 manna takmörkun í hóp, grímuskyldu og öllum tilheyrandi sóttvörnum lofaði maímánuður góðu, haldinn var aðalfundur og púttmót. Í lok mánaðarins funduðu svo fulltrúar sem kosnir voru á aðalfundi FEBH með kollegum sínum á Landsfundi LEB sem haldinn var á Selfossi.
Þann 1. júní á 113 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar var öllum nefndarmönnum boðið til fundar með stjórninni. Þar var þeim sem voru að ljúka störfum fyrir félagið þakkað gott og ánægjulegt samstarf. Þeim sem voru að hefja störf í nefndum að nýju voru afhent erindisbréf en það er nýlunda hjá FEBH. Erindisbréfin eru ekki íþyngjandi heldur er með útgáfu þeirra sýnd virðing fyrir starfinu sem fer fram hér innan félagsins og allri þeirri sjálfboðavinnu sem þar er lögð til.
Farin var ferð á vegum gönguhópsins á sunnanverða vestfirði í júní. Ferðin heppnaðist vel og var gist í tvær nætur í Flókalundi.
Hingað komu í síðustu viku júní þær Sigurbjörg Hannesdóttir frá Alzheimersamtökunum og Herdís Hjörleifsdóttir félagsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ til að kynna okkur félagstarf innan Heilavina og voru með áhugaverða fræðslu um samskipti við heilabilaða.
Sumarið kom og lokað var í Hraunseli frá 30. júlí til 9. ágúst.
Ferðanefndin stóð fyrir 3 daga ferð til Akureyrar í september sem tókst afburðavel. Gist var á Hótel KEA í 2 nætur. GJ Travel sá um báðar ferðirnar sem voru farnar á vegum félagsmanna innan FEBH og var fararstjóri í þeim báðum Emil Örn Kristjánsson Þá kynnti ferðanefndin til sögunnar siglingu um Mósel og Rínarfljót en sú ferð verður farin sumarið 2022.
Í lok september var starfsemin ljósmynduð. Ljósmyndari frá Hafnarfjarðarbæ kom til að festa á filmu þann mikla fjölbreytileika sem ríkir í afþreyingu í Hraunseli. Stóla yoga bættist við í þá flóru á árinu.
Fóstbræðrasaga og Laxdæla nutu vinsælda sem fyrr en Íslendingasögurnar þykja einstaklega áhugaverðar og námskeiðin vel sótt hjá Kristínu Jónsdóttur.
Halldór Árni Sveinsson hélt hér fyrirlestur um Verndun sögunnar í Hafnarfirði þegar komið var fram í október. Myndasafnið hans er allt geymt hér og er áætlað að halda námskeið sem hann mun fara betur yfir fyrir haustið. En það er verkefni sem er mjög áhugavert en myndefni hans nær aftur til 1982.
Ball var haldið í október og var sel sótt. Úrval Útsýn hélt hér í Hraunseli skemmtikvöld sem tókst mjög vel.
Myndlistasýning Jóns Gunnarssonar listmálara var opnuð í Hraunseli á 96 ára afmæli hans þann 30. október sl. Sýningin stóð fram til 20. janúar 2022. Í lok sýningar færði fjölskylda Jóns félaginu 3 listaverk að gjöf. Félag eldri borgara í Hafnarfirði þakkar þá miklu rausn sem félaginu er sýnd með gjöfinni en hún mun prýða húsakynni FEBH og gleðja augu gesta um ókomna tíð.
Rósa Karen Borgþórsdóttir kom til okkar í nóvember og kallaði erindi sitt Grúskað í gömlum myndum. Þar voru fundargestir beðnir um að bera kennsl á einstaklinga á gömlum myndum og var verkefnið einstaklega skemmtilegt og mikilsvirði fyrir skráningu á myndum hjá Byggðarsafninu.
- nóvember var komið á 50 manna takmörkun og þá var margt af því sem hér er í boði fellt niður fram yfir áramót. En þrátt fyrir það var púttmót haldið í desember.
Með aðkomu FEBH að Öldungaráði er félaginu tryggð sterk staða í málefnum og þjónustu við eldri borgara í bænum. Þar hefur félagið meðal annars áhrif eins og á tekjutengingu frístundastyrks en í covid var hann tekjutengdur miðað við brúttólaun að upphæð 391.600. Öldungaráð gerði athugasemdir við þá tölu og sýndi fram á hversu ráðstöfunartekjur einstaklings sem væri með þau brúttólaun væri lágar. Viðmið tekjutengingar var því hækkað um síðustu áramót í 422.000 kr. Öldungaráð og FEBH vinna vel saman en félagið á 3 fulltrúa af 7 í ráðinu og kemur formaðurinn frá FEBH. Niðurfellingar á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara eru mestar í Hafnarfirði þegar miðað er við höfuðborgarsvæðið.
Þá hefur félagið í gegnum öldungaráðið verið með í starfshóp um félagslega þjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ.
FEBH er aðili að verkefninu brúkum bekki en það verkefni hefur staðið yfir í 12 ár og er til fyrirmyndar. Nú í ár ætlar Kristinn Magnússon sjúkraþjálfari að gefa til verkefnisins 10 bekki sem staðsettir verða við Ástjörn.
Kjaranefnd félagsins er mjög öflug og vakandi á verðinum fyrir hagsmunum eldri borgara í bænum og hefur lagt fram töflu um skerðingar Tryggingastofnunar á lífeyristekjum og sent þingmönnum. Nú ætlum við að verið sé að endurskoða almannatryggingakerfið og vonum við að þar verði hagsmunir eldri borgara sannarlega hafðir að leiðarljósi.
Félag eldri borgara í Hafnarfirði, á fulltrúa í stjórn LEB og kjaranefnd LEB. Fulltrúa í verkefnastjórn Sóvangs, Öldungaráði og verkefninu brúkum bekki.
Stjórnin hélt 10 fundi á árinu. Félagsmenn voru 1803 um síðustu áramót.
Hafnarfjarðarbær hefur sem fyrr eða allt frá stofnun félagsins staðið vel við bakið á félaginu. Frá því félagið flutti hingað að Flatahrauni 3 hefur Hafnarfjarðarbær borgað húsaleigu og laun starfsfólksins.
Þegar vikið er að starfi og viðmóti starfsfólksins. Þá vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir frumkvæði, alúð, dugnað, útsjónarsemi og vilja til að gera aðkomu og velferð félagsmanna sem besta. Það má sjá með uppsetningu og skipulagi sóttvarnarhólfa sem hér voru sett upp vegna covid, sótthreinsana og alls skipulags sem var og er til mikillar fyrirmyndar en þar liggur óendanlega mikil vinna starfsmanna að baki. Ég segi það oftar en ekki ,“Þetta er ekki hægt án ykkar.“
Ég vil þakka ykkur öllum fyrir hönd stjórnarinnar framlag og stuðning við starfsemi Félags eldri borgara í Hafnarfirði. Þátttaka félagsmanna er mikilvæg öllu starfi innan FEBH, félagsins sem er með velferð og hagmuni okkar allra í forgrunni.
Ég vil þakka af heilum hug þá miklu ánægju sem ég verð aðnjótandi í samstarfi með ykkur.
Valgerður Sigurðadóttir
formaður FEBH