SKÝRSLA STJÓRNAR 2020

Skýrsla fyrir árið 2020.

Tónar frá nýárstónleikum í Bæjarbíó ómuðu út í andrúmsloft janúarmánaðar, sem var frekar kalt. Eldri borgarar nutu listarinnar þennan dag. Þeim var boðið á tónleikana. Innan Félags eldri borgara stóð sem fyrr starfið í blóma. Félagsmenn voru endurnærðir á nýju ári uppfullir af hugmyndum um bætt félagstarf. Verið var að undirbúa ferð út fyrir landsteinana um sumarið 2020, bókmenntaklúbburinn auglýsti úrval fyrirlesara, dansinn dunaði í línu og  zumba og farið var að leggja drög að dansleikjum eins og Góudansleik. Qi gong bætti heilsu félagsmanna og er mikil fjölgun í hópnum og Gaflarakórinn söng svo undirtók í húsinu. Gönguhóparnir sem gengu inni mættu alla morgna og þeir hópar sem gengu úti gáfu ekkert eftir í vetrarkuldanum. Til að undirbúa vorið auglýsti púttnefndin lokun vegna viðgerða á púttvellinum.  Opið hús var á fimmtudögum og var Lilja Margrét Olsen búin að heimsækja okkur og ræða erfðamál. Lilja Hilmarsdóttir frá Betri ferðum kom og ræddi ferðamál. Þá var eins og eitthvað lægi í loftinu því fáir komu til að hlusta á kynningu hennar á ferðum sumarsins. Fyrirlestur um svefn, svefnleysi og hreyfingu var fluttur hér af hjúkrunarfræðingum á Sólvangi sem jafnframt sögðu okkur frá því að búið væri að setja á laggirnar auðveldari aðkomu fyrir eldri borgara á heilsugæslunni. Billjard, pílan og boccia eru íþróttagreinar sem vekja mikinn áhuga meðal félagsmanna og voru menn mættir til að taka þátt.

Þorrablót var í undirbúningi, bridge, spilamennskan og bingóið naut vinsælda sem fyrr. Laganefndin og uppstillingarnefndin höfðu það rólegt svona í byrjun árs en vinna beið þeirra handan við hornið enda áætlaður aðalfundur í mars . Kjaranefndin var á vaktinni um velferð eldri borgara. Sundleikfimin var opin og nutu þess margir að fara í sund. Söfnin í bænum vöktu athygli á opnun sinni og ókeypis aðgengi fyrir eldri borgara.

  Það hvarflaði sjálfsagt ekki að neinum að árið sem var nýhafið myndi hefta þegar frá liði allar samvistir manna og vera mörgum erfitt vegna heimfaraldurs.

Veðrið var svo leiðinlegt í febrúar að þann 14. var dagskráin felld niður. Þegar leið að lokun mánaðarins flutti Forseti Íslands ávarp um að hingað til lands væri komin svokölluð kórónuveira. Þegar ávarpið var flutt voru nýjar auglýsingar nýkomnar á Facebook síðu Félags eldri borgara í Hafnarfirði um tréskurðarnámskeið, hreyfingu og dans. Þann 6. mars tilkynnti svo félagið félagsmönnum sínum öll þau tiltæku ráð sem þeir gætu nýtt sér til að forðast veiruna. Daginn eftir eða 7. mars var síðan félagsstarfinu lokað.

Við þessar aðstæður sem upp voru komnar  var ákveðið að starfsfólkið í Hraunseli tæki að sér að vera símavinir. Þær tóku sig til og hringdu í alla Hafnfirðinga 85 ára og eldri til að heyra hvernig þeir hefðu það við þessar sérkennilegu aðstæður.  Þeim var vel fagnað og fannst fólki gott að fá símtal og finna það að það væri hugsað til þeirra. Send var út tilkynning til félagsmanna um að gildistími félagsskírteina yrði framlengdur og var haft samband við verslanir og gátu félagsmenn vísað í tilkynninguna sem birt var á Facebook.

Þann 30. apríl var opnað aftur fyrir félagsstarfið með skertri dagskrá. Dagskráin var nokkrum sinnum uppfærð á árinu 2020 og byggðist það alfarið á þeim tilkynningum sem komu frá sóttvarnaryfirvöldum. Sumarið lofaði góðu og dagsferðir auglýstar og héldum við í félaginu hér aðalfund þann 18. júní.  Sumaropnun félagsstarfsins var lengd frá árinu áður og var frá 1. júní til 15. ágúst. Þann 1.september leit út fyrir að félagsstarfið gæti farið gang en með sóttvarnarviðmiðunum.  Málþing var haldið um einmannaleikann og Eddukvæði voru á boðstólnum í formi námskeiðs. Púttið var komið í gang og dagskráin var uppfærð. Þann 7. október  kom ein bylgjan enn af Covid 19 en það nafn var á veirunni, og var þá tekin upp grímuskylda í Hraunseli, skráning á þeim sem komu í húsið og 20 manns hámark í hóp. Fyrirlestrar voru nú auglýstir rafrænir, sem og lestrarstundir, samsöngur og tekin upp sú nýjung að spila bridge á netinu sem gafst mjög vel.

Sex stjórnarfundir FEBH voru haldnir á árinu sem endurspegla stöðuna en að öllu jöfnu eru haldnir 10 fundir á ári.  Starfstúlkurnar í Hraunseli  tóku á  sig mikla aukavinnu við að halda félagsstarfinu gangandi við þessar ströngu viðmiðanir. Vinna þeirra er til mikillar fyrirmyndar og vil ég þakka þeim fyrir þeirra ómetanlega framlag til starfsemi félagsins. Starfsemin var síðan rekin með miklum skerðingum og takmörkunum fram á  yfirstandandi ár.

Kjartan Jóhannsson fyrrverandi formaður félags eldri borgara í Hafnarfirði lést í nóvember. Hann tók við formennsku árið 1976 af föður sínum Jóhanni Þorsteinssyni sem var fyrsti formaður félagsins en Jóhann lést í embætti. Kjartan var störfum hlaðinn við opinbera þjónustu þegar hann tók að sér formennsku í félaginu sem hann sinnti fram á árið 1979. Við minnumst hans með þakklæti og virðingu og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Um áramótin 2020-2021 voru félagsmenn 1848.

Þegar litið er til starfsemi Félags eldri borgara í þau 52 ár sem það hefur starfað þá hefur félagið aldrei staðið frammi fyrir því að leggja niður áætlaða dagskrá eins og á árinu 2020.

Samstarf félagsins við Landssamband eldri borgara hefur verið mikið á árinu. Hafnarfjarðarbær hefur verið okkur öflugu styrktaraðili um árabil og er það allri starfsemi félagsins mikilvægt.  

Félag eldri borgara í Hafnarfirði vinnur gegn einmannaleika með fjölbreyttu framboði sínu til tómstunda. Starfsemin er byggð á óeigingjörnu sjálfboðastarfi félagsmanna sem er ómetanlega dýrmætt öllu félagsstarfi, því án framlags ykkar væri félagið ekki til.  Ég vil þakka öllum þeim af heilum hug og hjarta sem lagt hafa hönd á plóginn við uppbyggingu og viðhald á félagslífi innan Félags eldri borgara í Hafnarfirði. Það eru forréttindi að starfa í slíkum hóp.

Hafnarfirði, 20.maí 2021

Valgerður Sigurðardóttir formaður