SKÝRSLA STJÓRNAR 2019

Skýrsla stjórnar FEBH fyrir árið 2019, flutt á aðalfundi 18. júní 2020.

Þegar litið er yfir starf félags eldri borgara í Hafnarfirði á 51 starfsári þess árið 2019 leynir sér ekki krafturinn og sú frjóa hugsun sem býr meðal félagsmanna og hefur viðhaldið starfinu um áratuga skeið. Fundargerðir stjórnar sem varðveittar hafa verið frá upphafi geyma söguna. Það verður seint fullþakkað þeim sem staðið hafa vörð um verðmæti þeirra skjala og um leið þá starfsemi sem félagið  býr yfir.

Að loknu velheppnu og ánægjulegu afmælisári 2018 hófst nýtt ár þar sem lokaundirbúningur á glæsilegu Þorrablóti stóð yfir sem Þorrablótsnefndin stóð fyrir og var  haldið á bóndadaginn 24. janúar. Þema þess var Sundhöll Hafnarfjarðar. Þorrablótið nýtur mikilla vinsælda og var sem fyrr uppselt. Línudanshópurinn  sem dansar í hverri viku sýndi listir sínar á blótinu eins og undanfarin ár við fögnuð áhorfenda. Hópurinn hefur sýnt víðar þar sem félagið hefur verið með kynningar á starfsemi sinni og er annálaður fyrir fagmennsku. Aukin ásókn hefur verið í dansinn með nýju Línudansnámskeiði sem hóf göngu sína á árinu. Fyrsta opna hús ársins á vegum viðburðanefndar um Opið hús var  myndasýning frá Byggðasafninu en hún  nýtur vaxandi vinsælda. Þar eru rifjaðir upp gamlir tímar og sótt í þekkingu þeirra sem muna þá.

Bókmenntaklúbburinn hélt sinn fyrsta fund í byrjun árs en fundir klúbbsins hafa verið fjölmennir þar sem boðið er upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar kynningar á bókmenntum allt starfsárið.

 

Í febrúar kom í Opið hús fulltrúi frá Tryggingastofnun til að kynna okkur réttindi eldri borgara og þær reglur sem stofnuninni bæri að fara eftir. Var erindið fróðlegt.

Slegið var upp balli  í byrjun árs en það var upphafið að fleiri slíkum en sex böll voru haldin út árið. Dansleikjanefndin hefur séð um þann þátt félagsstarfsins og séð til þess að margir hafa tekið sér góðan snúning hér í salnum.

 Lionsklúbbur Hafnarfjarðar hefur boðið í opið hús í febrúarmánuði um árabil og var þeim viðburði tekið fagnandi. Lionsklúbbur Hafnarfjarðar hefur sýnt félaginu með því mikinn og góðan stuðning með opnu húsi og þeim ómetanlegu gjöfum sem klúbburinn hefur fært félaginu.

 

 Aðalfundur félagsins var haldinn 21. mars og var vel sóttur. Þar var samþykkt ályktun sem send var á þingmenn kjördæmisins.

 

Tálgunarnámskeið hóf göngu sína í húsnæði á Hjallabraut 33 og var vel sótt.

 

Vorið var að vakna og stóð  ferðanefndin  fyrir ferð félags eldri borgara í Hafnarfirði til Þýskalands, Austurríkis og Tékklands í byrjun apríl.  Söngsveitin ásamt Hjördísi Geirs stóð fyrir Sumargleði og hélt hér uppi fjörinu á síðasta vetrardag.

Hin árlegi viðburður Hafnarfjarðarbæjar Bjartir dagar voru ekki langt undan  en félag eldri borgara fær notið þeirrar dagskrár með þátttöku sinni. Þá sóttu fulltrúar frá félaginu Landsfund Landssambands eldri borgara.

 

Gaflarakórinn var 25 ára.

Þann 2. maí hélt kórinn sína árlegu  vortónleika í Víðistaðakirkju fyrir fullu húsi. Gestir þeirra voru félagar í Garðakórnum.

Þann 18. maí var svo komið að Kóramótinu sem kórinn sá um þessu sinni.  Í því tóku þátt 4 kórar auk  kórsins. Tónleikarnir voru haldnir í Víðistaðakirkju fyrir fullu húsi og mikinn fögnuð áheyrenda. Félag eldri borgara keypti rúm 30 eintök af söngbók sem Kiwanisklúbburinn Hraunborg gaf út og ber nafnið Rósin og gaf kórnum í afmælisgjöf og voru þau afhent í júlí. LEB hefur styrkt útgáfu bókarinnar.

Tvisvar í viku kl.09.00 að morgni mætir stór hópur fólks sem dillar sér, tjúttar og tvistar.

Dansleikfimin hélt upp á 5 starfsár sitt í maí  með mikilli danshátíð sem haldin var í undir styrkri stjórn Auðar Hörpu Andrésdóttur Zumbakennara , sem verið hefur driffjöðurin frá upphafi. 

Til danshátíðarinnar sem haldin var 9. maí  í íþróttahúsinu í Kaplakrika mættu um 250-300 manns. Eldri dansandi borgurum var boðið til hátíðarinnar bæði frá Garðabæ og Reykjavík . Hátíðin var mjög flott og tókst vel í alla staði.

Sjónvarpsmenn frá RUV voru mættir á staðinn og tóku upp viðburðinn sem síðar  birtist í sjónvarpsþættinum Landinn hjá Gísla Einarssyni í desember  2019.

 

Dagsferð var farin til Árborgar í maí sem var fjölmenn og  skemmtileg. Það má til gamans geta þess að haustið 2016 fengum við hingað í Hafnarfjörð föngulegan hóp þaðan hingað í heimsókn.

 

Pútthópurinn er iðinn við púttið inni sem úti allt starfsárið. Haldið var mót í maí þar sem vinningshafar voru hlaðnir gjöfum. Einbeitingin er fyrir hendi hjá þeim sem íþróttina stunda.

 

Undir íþróttanefndina heyrir Pílan, Billiard og Boccia.  Búið er að bæta við öðru píluspjaldi í minni salnum vegna góðrar aðsóknar.  Billiard er spilaður að mikilli fimi við frábærar aðstæður á neðri hæð hússins að Flatahrauni 3. Boccia nýtur alltaf vinsælda.

 

Ákveðið var að styrkja Gráa herinn í málsókn sinni sem varða skerðingar Tryggingastofnunar vegna lífeyrisgreiðslna en áður samþykkt ályktun hér á aðalfundinum 2019 var um sama efni.

 

Málþing var haldið á vegum félags eldri borgara í Hafnarfirði og Ástjarnarsókn í september.  Þar var fjallað um málefni sem snúa að daglegu lífi eldra fólks. Frummælendur voru:

 Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Þórey S. Þórðardóttir og Ingibjörg Sverrisdóttir.  Málþingið sóttu um 70 manns og umræður góðar.

 

Bingónefnd sér um að Bingó sé spilað einu sinni í viku yfir starfsárið. Verðlaunin eru vegleg og fer þátttakendafjöldi vaxandi. Framkvæmd bingósins er í sískoðun.

 

Sama á um spilavist og bridge. Þar sjá viðkomandi nefndir um spilin sem spiluð eru allar vikur á meðan starfið er í gangi. Spilin njóta mikilla vinsælda enda sú hugarleikfimi sem hefur víðtækust áhrif til bættrar heilsu.

 

Qi gong býður upp á orku- og jafnvægisæfingar sem byggðar eru á kínverskri læknisfræði. Æfingarnar heilla þá sem þær stunda og eru hér í boði allt starfsárið. Lögð er áhersla á færustu leiðbeinendur til að leiða hópinn en innan hans eru líka einstaklingar  sem eru mjög hæfir í tjáningunni og miðla henni vel.

 

Ferðanefndin stóð fyrir ferð í Borgarfjörðinn sem tókst með ágætum enda slíkar ferðir vinsælar.

 

Gönguhópur eldri borgara gengur alla mánudaga frá Haukahúsinu kl.10.00. Þar ganga saman 20 -40 manns. Suma mánudaga safnast göngufólkið saman í bíla og fara þá aðrar gönguleiðir. Gengið er að jafnaði um klukkutíma.

 

Þegar leið að hausti var dagskráin tilbúin fyrir veturinn 2019- 2020.

Íslendingasögurnar voru áfram lesnar með Kristínu Jónsdóttur íslenskukennara.

 

Lionsklúbb Hafnarfjarðar var boðið til kaffisamsætis sem þakklætisvott fyrir áralangan stuðning við félagið. Vilborg Reynisdóttir starfskona Hraunsels söng í samkvæminu og heillaði alla viðstadda með fallegri og hreinni rödd sinni.

 

Kráarkvöld  með Stórsveit Íslands gerði mikla lukku þegar komið var fram í október.

Ólafur Björnsson augnlæknir kom til okkar í Opið hús í mánuðinum og hélt frábæran fyrir lestur um sjónina og þá mögnuðu möguleika sem hún býr yfir.

 

Ólafía Ragnarsdóttir heimsótti okkur frá Öryggismiðstöðinni og var þar með fræðandi og skemmtilegan fyrirlestur.

Bridge- liðið 10 manns tóku þátt í  bridgemóti á blómaeyjunni Madeira. Mótið var fjölmennt og ánægjulegt.

Lionsklúbburinn Ásbjörn færði félaginu glæsilega og öfluga hrærivél og var þeim þökkuð gjöfin með kaffisamsæti þar sem Svanhildur úr Gaflarakórnum og Vilborg, tróðu upp við fögnuð áheyrenda.

 

Guðrún Ágústsdóttir kom til okkar í nóvember og fjallaði um einmannaleikann, sem er alvarlegt og dapurt ástand. Erindi sitt setti hún upp á stórkostlegan hátt, gerði það létt og áhugavert.

 

Í byrjun desember var haldin aðventugleði. Stórsveitin og Hjördísi Geirs sáu um frábæra stemningu.

 

Það er gengið alla morgna í Kaplakrika frá 08.00-12.00 og nýta sér margir eldri borgarar aðstöðuna allt árið um kring. Það er gott að geta gengið inni á veturna þegar snjóar og kuldinn bítur.

 

Kjaranefndin hefur staðið vaktina fyrir bættum kjörum eldri borgara. Nefndin hefur tekið saman og lagt fram útreikninga ásamt greinargerð varðandi skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum sem byggir á reiknivél Tr. en hún komst ekki í gagnið fyrr en seinnipartinn í janúar. Þá hefur nefndin farið yfir breytingar á skattþrepum og sent tillöguna á stjórnvöld og ASÍ. Viðbrögð stjórnvalda enginn og verkalýðsfélaga léleg.

 

Lagabreytingar eru engar í ár svo að rólegt var hjá laganefndinni árið 2019.

Uppstillingarnefnd kynnir starf sitt hér á eftir.

Ferðanefndin sá um aðra utanlandsferð í nóvember til Brugge og Brussel og heppnaðist ferðin mjög vel.

 

Félagi eldri borgara er boðið að kynna starfsemi sína í nóvember á ári hverju þegar Hafnarfjarðarbær býður til kaffisamsætis þeim Hafnfirðingum sem fagna 70 ára afmæli sínu. Síðast var þeim boðið sem fæddir eru 1949. Þar gefst tækifæri til að segja frá því öfluga starfi eldri borgara sem fram fer hér á Flatahrauni, Hjallabraut 33 og í hinum ýmsu íþróttahúsum bæjarins eins og fram kemur skýrslu stjórnar sem inniheldur skýrslur nefnda.

Gaflarakórinn söng í Hörpu 1. desember ásamt stórum hóp kóra eldri borgara.

 

Fyrir jólin hefur gönguhópur eldri borgara það fyrir vana að halda jólaveislu þar sem meðlimir hópsins reiða fram glæsilegar veitingar. Það vekur athygli í öllum fallega umbúnaðinum að servíettuskrautið er handgert og gestum til eignar.

 

Bridge-ið stendur fyrir jólahlaðborði í hádeginu rétt fyrir jól og það gerir spilavistin líka. 

 

Fjölbreytileikinn í dagskránni býr yfir reynslu,  þekkingu og viðmiði þeirra kynslóða sem leggja að mörkum ómetanlegt starf öðrum og sjálfum sér til ánægju. Glæsilegt og metnaðarfullt framtak eins og hjá öllum þeim sem leggja sitt að mörkum til að gera starfsemi félagsins sem blómlegasta, áhugaverðasta og besta.

 

Margir eldri hafnfirðingar hafa notið Janusarverkefnisins og látið vel af því. Margir nýta sér dýnyæfingar og sundleikfimi.

Félag eldri borgara á í nánu samstarfi við bæjaryfirvöld,Fjölskylduráð og Öldungaráð en samkvæmt lögum frá október 2018 eiga 3 fulltrúar úr félaginu sæti í Öldungaráði ásamt þremur frá bænum og einum fulltrúa frá Heilsugæslunni. Fulltrúar frá félaginu sitja í verkefnastjórn hjúkrunarheimilisins Sólvangs og verkefninu Brúkum bekki en á seinni hluta ársins var settur niður á Rauðhólsnesi við Herjólfsgötu verðlaunabekkurinn Vörður. Þá á félagið fulltrúa í stjórn Landssambands eldri borgara. Allt samstarf er félaginu mikilvægt.

Nýr verkefnastjóri Linda Hildur Leifsdóttir tók við á árinu en hún er tómstundafræðingur að mennt. Starfskonurnar hér eru starfinu ómetanlegar.

Hingað í Hraunsel geta allir eldri hafnfirðingar komið og notið þess sem félagið hefur upp á að bjóða án þess að vera í félaginu. Þá geta þeir líka komið og  kíkt í blöðin og þegið kaffi í boði félagsins.

 En þrátt fyrir það, fjölgar félögum sem eru nú 1.780 talsins. Af þeim eru 74, 90 ára og eldri en þeir félagar eru gjaldfríir. Elsti félagi FEBH er fæddur árið 1922.

Með því að gerast félagi og greiða 3000 krónur í árgjald er verið að styðja við starfsemina. Á móti fær hver félagi félagsskírteini sem er afsláttarkort í all flestum verslunum sé því framvísað. Hægt er að framvísa skírteininu á golfvöllum, sundlaugum og víðar þar sem þið eruð á ferðalögum og fá afslátt. Félagsaðildin er því beggja hagur. Ég hvet ykkur eindregið til að nýta ykkur kortin sem gefin eru út til eins árs í senn, en þau eru tilbúin til afhendingar hér frammi á skrifstofu hafið þið ekki þegar nálgast þau.

 

Ágætu fundarmenn hér hefur verið farið yfir árið 2019 en það ár endurspeglaði eins og fyrri ár þann góða samtakamátt sem er svo öflugur hér innan félags eldri borgara í Hafnarfirði. Sá máttur býr meðal ykkar í gleðinni og áhuganum sem þið gefið af ykkur til starfsins.

 

Ég er auðmjúk og þakklát að fá tækifæri til að vera í forsvari fyrir slíkan hóp.

 

Hafnarfirði, 18. júní 2020

Valgerður Sigurðardóttir

formaður FEBH