SKÝRSLA STJÓRNAR 2018

Dýrmæt ár, líða hvert af öðru innan Félags eldri borgara í Hafnarfirði.  Árið 2018 var þar ekki undanskilið.

Árið var afmælisár félagsins og var því fagnað á eftirminnilegan hátt.

Það vakti líka frekari athygli á félaginu sú umræða sem það fékk í tilefni að hálfrar aldar starfsemi sinni. Kynning á félaginu var haldin í Ástjarnarsókn, á 70 ára afmælishófi Hafnfirðinga og innan félagasamtaka. Viðtal var tekið við formann félagsins vegna tímamótanna.

Umræðan bar alltaf að sama brunni, áhuga frumherja félagsins sem unnu þrekvirki í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ.  Þeir voru einir og sér, þar sem ekkert annað félag með hagsmuni eldri borgara að markmiði voru starfandi á landinu. Grunninn sem þau lögðu að félagsandanum, frístundum að loknum vinnudegi, bættri heilbrigðis- og heimilisþjónustu og skattamálum.  Þá voru húsnæðismálin þeim ofarlega í huga. Það er eftir því tekið hvað þau og sveitarfélagið voru ákveðin að stíga saman skrefin til fulls í húsnæðismálum. Þau áttu þátt í því að Hrafnistu var valinn staður við Skjólvang.  Þau töluðu þá fyrir lægri skatta álögum á eldri borgara eins og við gerum nú.

Athyglin beindist ekki síður að þeim sem tekið hafa þátt og viðhaldið öflugri uppbyggingu félagsstarfsins á þeim áratugum sem liðnir eru.

Kynslóðir koma og fara en það eru og verða alltaf nýjar kynslóðir sem eldast, hætta að vinna og vilja tileinka sér skemmtileg viðfangsefni við starfslok. Með þeim og þeirra þekkingu og reynslu eykst fjölbreytileikinn. Við þá arfleið býr félagið í dag. Þar endurspeglast líka ósérhlífnin í starfinu innan félagsins. Heilsa, hreyfing og hamingja eru þau þrjú H sem starfsemin snýst um. Hamingjan felst í öllum H-unum.

Nefndastörfin eru mest áberandi þátturinn í félagsstarfinu þar starfa um 70 manns sem eru tilbúin að leggja sitt að mörkum til að gera gott starf enn betra. Dagskráin endurspeglar þá vinnu með skipulagi félagsmanna og hugmyndum.

Heilsan er í fyrirrúmi. Heilaleikfimin, hreyfingin og einbeitingin eru mikilvægir þættir í allri starfsemi innan félagsins. Hvort heldur verið er að hlusta, spjalla, spila, sauma, dansa, ganga eða synda.

Námskeiðin eru vel sótt sem staðfestir að val og hugmyndir félagsmanna falla í góðan jarðveg og fylgja samtímanum.

Í Hraunseli er miðstöð félagsstarfsins en starfsemi er líka á Sólvangsvegi 1 og Hjallabraut 33. Þar er upplestur, handmennt, leikfimi (Hjallabraut) og önnur samvera.  En má gera betur og fór nýtt námskeið í tálgun af stað á Hjallabraut nú nýlega. En þar eins og annarsstaðar er starfsemin í sískoðun.

Taflborð stendur í stóru forstofunni í Hraunseli. Þar geta þeir sem eru á ferðinni rifjað upp mannganginn, kíkt í blöðin á meðan þeir fá sér kaffi og Það skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli hvernig við ráðstöfum dögunum sem við fáum að njóta eftir að vinnudegi lýkur.

Í spilunum vistinni og bingói er búið að setja upp hóp meðal nefndarmanna þar sem skipulag komandi spiladaga er sett upp. Það kerfi er til fyrirmyndar.

Bridge er spilað tvisvar í viku. Þar eru menn og konur mjög áhugasöm og er markmiðið að spilað sé á sem flestum borðum.

Handmenntin og myndlistin nýtur sívinsælda og var sýning á liðnu hausti sem staðfesti það. Sýningargripir voru þar stórglæsilegir og um margt merkilegir. Þar voru sýnd listaverk félagsmanna frá öllum tímum, hvort heldur saumur, prjón, útskurður eða málun. Umfang sýningarinnar var mikið.

Líkamstjáningin í Qi Gong er einstök list sem margir stunda. Þar er aginn sem línudansinn nýtir sér í samhæfi og takti dansaranna. Allt spilar þetta saman. Samhæfingarsporin í línudansinum eru kennd sér fyrir byrjendur. Aukin hreyfing er í Zumba þar sem hver og einn ræður ferðinni og dansar af sinni frjálsu og fjörugu list.

Þeir sem hafa viljað halda áfram að dansa eftir daginn hafa átt þess kost að sækja dansleiki í Hraunseli í vetur. Þar hefur dansnefndin lagt sitt að mörkum við undirbúning og vali á hljómsveitum.

Menningin og bókmenntirnar blómstra. Í bókmenntaklúbbnum þar sem hinir ýmsu og góðu gestir mæta og fullt er út að dyrum. Íslendingasögurnar þykja spennandi og eru orðnar fastur þáttur í starfinu.

Útivistin gefur ekkert eftir í félaginu en gönguhópur fer frá Haukahúsinu alla mánudaga. Púttið er hægt að stunda bæði úti og inni en æfingar fara fram á Hrafnistuvelli og í Hraunkoti. Fyrir þá sem vilja frekar ganga inni er Kaplakriki með opið alla daga fyrir hádegi. Sundleikfimin í Ásvallalaug er vel nýtt og leikfimin í Bjarkarhúsi.

Pílan og billjard halda alltaf velli.

Í dag er það ómetanlegt hversu margir hafa valist til starfa innan félagsins sem tilbúnir eru að gefa af sér til  til að standa undir þeim markmiðum og tilgangi sem starfsemin stendur fyrir.

Þar hafa margar hendur unnið þarft verk. Ómetanlegt er hversu margir hafa verið tilbúnir til sjálfboðavinnu og samhliða notið dagana. Starfsemin býr vel að framlagi slíkra félagsmanna.

Söngur Gaflarakórsins ómar víða og æfir tvisvar í viku. Kórinn stendur í vor n.t.t. þann 18. maí fyrir fimmkóramóti hér í Hafnarfirði og er undirbúningur þegar hafinn.

Opið hús er rauði þráðurinn í starfinu. En viðburðarnefnd félagsins sér þar um að fá áhugaverða fyrirlesara og skemmtiefni. Opið hús hefur verið haldið 1. fimmtudag hvers mánaðar en það er breyting frá því sem áður var en þá var opið hús alla fimmtudaga.

Lionsklúbbur Hafnarfjarðar hefur verið félaginu mikill stuðningur í gegnum árin. Hann stendur fyrir skemmtun fyrir félagsmenn í febrúar einu sinni á ári þar sem á boðstólnum eru glæsilegar veitingar, söngur , gamanmál og dans. Þá hefur Lionsklúbburinn staðið á bak við félagið með gjöfum til félagsins eins og hjartastuðtæki o.fl. Hafi þeir bestu þakkir fyrir hugulsemina.

Í tilefni sveitarstjórnarkosninganna stóð félagið fyrir opnum frambjóðendafundi 17. maí s.l. Þar gafst frambjóðendum þeirra flokka sem buðu fram í Hafnarfirði að koma sínum ætlunum og vilja á framfæri.

Þorrablótsnefndin hefur lagt mikið að mörkum til að gera blótin sem glæsilegust og hafa þema þeirra verið fróðleg og skemmtileg en þau hafa tengst bæjarsögunni. Happdrættið hefur verið myndarlegt enda mörg fyrirtæki tilbúin að styðja starf félagsins. Þeim var þakkað framlagið á afmælisári með riti félagsins sem gefið var út á 40 ára afmælinu.

Í félaginu er litið til flestra ef ekki allra átta.

Ferðanefndin stóð að miklum myndarskap fyrir 6 daga ferð til Suður-Englands og dagsferð til Þingvalla. Ferðirnar voru vel sóttar. Þá stóð nefndin ásamt Viðburðanefnd fyrir ferð í Veröld, hús Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands.

Kjaranefndin hefur staðið vaktina og fylgst meðal annars með viðmiðunartekjum vegna afsláttar á fasteignagjöldum og fleiri hagsmunaþáttum. Þar hefur Hafnarfjarðarbær komið best út á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar hagsmuni eldri borgara.

Laganefndin hefur verið í fríi á árinu en lögin voru tekin til gagngerrar endurskoðunar og samþykkt á aðalfundi 16. mars 2017.

Uppstillingarnefndin skilar sínu starfi hér á eftir.

Félag eldri borgara í Hafnarfirði á fulltrúa innan stjórnar Landsambands eldri borgara og í verkefninu Brúkum bekki. Þá á félagið 2 fulltrúa í verkefnastjórn Sólvangs.

Í haust tóku gildi ný lög fyrir Öldungaráð á landinu. Áður var ráðið skipað fulltrúum frá hinum ýmsu félögum í bænum en við breytingu laganna er það nú skipað þremur fulltrúum tilnefndum frá Félagi eldri borgara, þremur frá Hafnarfjarðarbæ og einum frá Heilsugæslunni. Formaðurinn kemur frá félagi eldri borgara.

Á afmælisári var haldin glæsileg afmælisveisla og fengnir frábærir skemmtikraftar. Hafnarfjarðarbær kom að því með myndarlegum stuðningi sem félagið mat mikils og þakkaði fyrir í bréfi til bæjarstjórnar. Afmælisnefnd félagsins stóð að afmælinu með miklum sóma.

Afmælisveislan var haldin á Ásvöllum og sóttu hana um 400 manns.

Margt var fleira gert í tilefni ársins.

Nýtt merki félagsins var tekið í notkun. Þá voru keyptir nýir fánar. Skjávarpar og tjöld voru endurnýjuð í báðum sölum til að gera aðstöðu til kynninga og fyrirlestra enn betri og með því fékkst tækifæri til að nýta salina samtímis. Hljóðkerfið var bætt. Þá greiddi félagið niður ferðir til að lækka kostnað félagsmanna á ferðalögum. Á árinu átti félagið samtal við bæjarstjóra vegna kaffisölunnar en Hafnarfjarðarbær seldi áður félagsmönnum kaffi á 200 kr. Félag eldri borgara óskaði eftir því að fá að taka kaffisöluna yfir, kaupa sjálft kaffið og bjóða félögum þegar þeir koma hingað í hús. Ósk félagsins var samþykkt og hætt var að selja kaffi. Hafnarfjarðarbær lét lagfæra gólfið í salnum, bóna gólfdúka , hreinsa húsgögnin og breyta nýtingu húsnæðisins í Hraunseli til þæginda fyrir félagið.

Það má geta þess til gamans að 9 formenn hafa starfað fyrir félagið og hafa átt farsæla samleið um það með 11 bæjarstjórum.

Hafnarfjarðarbær hefur ætíð sýnt starfsemi félags eldri borgara skilning og verið starfseminni bakhjarl. Janusarverkefnið er samvinnuverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Janusar og hafa eldri borgarar í bænum notið góðs af því framtaki. Með verkefninu var frístundastyrkur til 67 ára og eldri hækkaður í 4000 krónur á mánuði frá því að vera 1700 krónur. Með hækkuninni er markmiðið að gera öllum kleift að stunda hreyfingu. Verkefnið hefur gert eldri borgurum gott og er hvatning til áframhaldandi hreyfingar að námskeiði loknu og hefur á þann hátt áhrif á lífstíll aldurshópsins.

Þegar horft er til framtíðar félagsins í svo stóru bæjarfélagi ber að huga að frekari aðstöðu fyrir félagið þegar litið er til skipulags-og byggingarmála í bænum. Á þann hátt mun starfsemin þróast enn frekar sem góður heilsufarslegur valkostur fyrir íbúa bæjarins og tefja fyrir þeim sjúkdómseinkennum sem geta fylgt hærri aldri og lengra lífi.

Samstarfið á árinu 2018 var eins ánægjulegt og árin á undan. Bestu þakkir til ykkar að vera ávallt tilbúin að leggja félaginu lið. Hagur þess og velferð byggir á ykkur. Með ykkar framlagi fjölgar þeim sem vilja styðja við félagið og gerast félagar.

Það er mannbætandi að vinna í góðum hóp þar sem jákvæðni og bjartsýni ræður ríkjum og lausnirnar bíða handan við hornið.

Valgerður Sigurðardóttir, formaður.

Flutt á aðalfundi félags eldri borgara í Hafnarfirði 21. mars 2019.