SKÝRSLA STJÓRNAR 2017
Þegar litið er yfir áratuga sögu svo merktugs félags sem félag eldri borgara í Hafnarfirði er, má sjá að það hefur verið í sískoðun á starfsemi sinni alla tíð. Það fyrirkomulag hefur skilað því áfram veginn sem fersku og ungu félagi sem endurspeglar tíðarandann og er eftirsóknarvert að starfa innan.
Þau voru aðeins 20 áhugasamir einstaklingar um velferð þeirra sem eldri voru, sem stóðu að stofnun styrktarfélags aldraðra þann 26. mars 1968. Eitt af fyrstu verkum þeirra var að vinna í samráði og sambandi við stjórn bæjarins til að ná sem bestum árangri um þau mál sem að þau settu á oddinn.
Með fyrstu verkum þeirra var að gera könnun á högum eldra fólks í bænum. Margt fróðlegt koma þar fram en það sem stóð upp úr, var ósk um heimilishjálp. Heimilishjálp var lítt þekkt hér á landi en stjórnarmenn þekktu þann þjónustuþátt erlendis frá og var hann hafður með í könnuninni. Með tilkomu heimilishjálpar voru Hafnfirðingar orðnir tvöfaldir frumkvöðlar í velferð eldri borgara á landsvísu. Uppbygging dvalarheimila og íbúða fyrir eldri borgara virðist hafa farið hraðar af stað vegna tilkomu félagsins og þeirra áhrifa sem menn þar innanborðs beittu. Skattamál aldurshópsins voru líka ofarlega á baugi þá og hafa verið síðan.
Jóhann Þorsteinsson fyrsti formaður félagsins hafði áhuga á að koma á orlofi fyrir þá sem ekki fóru mikið út fyrir bæ sér til skemmtunar. Því var viðkomið og nutu margir þeirra ferða. Fyrstu árin einkenndust af slíkum ferðum, spilamennsku og samveru í Gúttó. Félagið hafði ekki fastann samastað fékk inni á hinum ýmsu stöðum í bænum en lét það ekki aftra sér né deyfa niður áhugann, félagið var stofnað til að hafa áhrif.
Með tímanum fjölgaði svo tómstundum og er svo komið að við búum nú yfir þéttskipaðri glæsilegri dagskrá á þrem stöðum í bænum, þar sem að við höfum fast húsnæði í hendi.
Með samvinnu stofnfélaga við Hafnarfjarðarbæ var lagður grunnur að farsælu og góðu samstarfi sem staðið hefur tímans tönn og verið framarlega í röð sveitarfélaga í hagsmunagæslu fyrir málaflokkinn. Hefur samstarfið eflt velferð eldri borgara í bænum og skilað okkur hingað í dag tæpri hálfri öld seinna.
Þeim verður seint fullþakkað, framtakið, dugnaðurinn og trúin á framtíðina sem að þau höfðu að leiðarljósi í störfum sínum.
Áfram byggir á þeim góða anda sem upphaflega var stofnað til og því jákvæða hugarfari sem ríkir innan félagsins. Heilsufar og félagslíf haldast fast í hendur. Þegar tími til tómstundaiðkunar verður rýmri er gott að eiga aðkomu að öflugu og heilbrigðu félagstarfi. Félagar eru komnir vel yfir 15 hundruð og líður vart sá dagur að ekki berist tölvupóstur þar sem er óskað eftir inngöngu í félagið. Þá ganga margir inn með því að skrá sig hér í Hraunseli.
Stjórn félagsins hefur komið saman 14 sinnum á árinu og átt fundi með öldungaráði og samráðsnefnd. Í fyrra endurnýjuðum við þann búnað er tilheyrir tæknibúnaði. Í ár verður horft til húsnæðisins og alls húsbúnaðar. Í sumar verður gólfið tekið og lagað hér í salnum. Það hefur verið aukin fjölbreyttni í tómstundum að Hjallabraut 33 eftir endurskipulagningu þar.Við höfum átt í góðu samstarfi við eigendur sem er Verkalýðsfélagið Hlíf og hefur Hafnarfjarðarbær sýnt okkur mikinn skilning. Allt verður þetta að vera í lagi til að halda úti góðu félagsstarfi.
Haldinn var landsfundur landsambands eldri borgara hér í húsnæðinu í maí s. l. og stóð fundurinn í tvo daga. Landsambandið hefur áður leitað til félagsins vegna fundarhalda þar sem húsnæðið hér þykir einstaklega opið og skemmtilegt. Forsetinn Guðni Jóhannesson kom hingað af tilefninu þar sem hann flutti ávarp við setningu fundarins.
Við fengum heimboð á Hrafnistu þar sem Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður og Pétur Magnússon forstjóri kynntu fyrir okkur sýna sýn á starfsemina og fyrir hvað þau vilja standa. Það var mjög fróðleg og ánægjuleg heimsókn. Það er stjórn og félagsmönnum gott veganesti til ákvarðanna og samvinnu að þekkja vel til starfsemi sem tilheyrir málflokknum innan bæjarfélagsins.
Félag eldri borgara og öldungaráð starfa þétt saman og unnu þau að samantekt á afslætti á fasteignagjöldum og settu upp viðmið við nágrannasveitarfélögin til að sjá hvernig þau standa sig í þessum efnum. Hafnarfjörður kom vel út úr samanburðinum.
Matarmálin svokölluðu tóku sinn toll í umræðunni og vinnu stjórnar á árinu enda sérlega erfitt mál sem fékk svo góðan endi á haustdögum. Þegar ég kom á jólafund á Hjallabrautina í desember s.l. þar sem matarmálin höfðu verið mest til umfjöllunar fann ég að gamli góði andinn sem einkennt hefur líf íbúa í húsinu var kominn aftur.
Lionsklúbbur Hafnarfjarðar sér um opið hús einu sinni á vetri. Klúbburinn hefur verið félaginu góður stuðningur en þeir hafa fært okkur tvö hjartastuðtæki annað þeirra er uppsett hér en hitt á Hjallabraut 33. Slík tæki veita öryggi.
Nefndarstörf innan félagsins eru í miklum blóma en innan þeirra starfa um 70 manns. Þar er unnið af opnum hug að gera gott starf enn betra, hugmyndir þróast og nýir félagar hrífast með.
Skýrslur nefnda eru settar inn í skýrslu stjórnar eins og í fyrra og verður þá skýrsla stjórnar lengri en líka eina skýrslan sem er flutt á fundinum.
Opið hús hefur verið rauði þráðurinn í gegnum starfið frá upphafi. Um tíma sáu félagasamtök í bænum um opið hús og skiptu á milli sín fimmtudögunum. Nú er opið hús alfarið á höndum þeirra sem eru í skemmti- og viðburðanefnd. Þær hafa verið framúrskarandi góðar að fá fyrirlesara til félagsins. 50 fyrirlestrar hafa verið fluttir sem innihalda margskonar fræðslu söng og afburða skemmtilegt efni. Ítarleg skýrsla frá nefndinni fylgir fundargögnum.
Söngur og gaman fylgir Gaflarakórnum. Kórinn er duglegur að ferðast og taka þátt í kóramótum. Þá fóru þau til Víkur í Mýrdal þar sem efnt var til tónleika. Sungu þau þar með kór eldri borgara á Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri. Kórinn ætlar að syngja á afmælishátíð félagsins. Ítarleg og góð skýrsla frá kórnum fylgir fundargögnum.
Morgunstund gefur gull í mund er einkunnarorð þeirra í dansleikfimini eða Zumba er dansað hér tvisvar í viku fyrir fullu húsi. Þar er líf og fjör undir frábærri stjórn gleðigjafans. Skýrsla um dansleikfimina fylgir fundargögnum.
Menn láta vel af sér í íþróttanefndinni og gengur allt vel þar.
Qi gong standa vel fyrir sínu, listaleikfimi. Þau hafa verið heppin með leiðbeinendur en ef þeir forfallast þá kennir Jarmila á meðan. Ekkert ráðaleysi þar.
Laganefndin fór yfir lögin í fyrra og er nú með breytingu, sem kynnt hefur verið samkvæmt lögum félagsins.
Göngunefndin gengur alla mánudaga frá Haukahúsinu. Þau heimsóttu Búðardal á árinu þar sem vel var tekið á móti þeim. Þar eins hjá gögnuhópnum og í öðrum liðum hér þar eru tugir manna sem taka þátt. Gönguhópurinn er vinsæll og vekur athygli.
Línudansinn er vel sóttur enda hörkulið á ferð. Þau voru glæsileg þegar þau dönsuðu á Þorrablótinu og erum við þess fullviss að þau eru flottasti Línudanshópurinn á landinu.
Ferðanefndin stendur nú fyrir ferð til Suður-Englands. Sú ferð á eftir að gera stormandi lukku eins og ferð þeirra til Pétursborgar.
Pútthópurinn sér um æfingar einu sinni í viku og þykja flottir. Það hringdi í mig maður sem vill endilega fá að keppa við þá og kynnast þeim á þann hátt. Góð meðmæli. Það er tekið eftir því sem menn eru að gera hér.
Dansnefndin leikur á alls oddi, þar ríkir gleðin sem annarsstaðar. Stóð fyrir áramótaballi sem gekk vel og er Góuball í farvatninu núna á morgun og eru allir hvattir til að mæta með dansskóna. Dansbandið spilar.
Þorrablótsnefndin stóð fyrir glæsilegu Þorrablóti þann 26. janúar s.l. Þema blótsins var Hafnarfjarðarhöfn og var húsið skreytt skrúfu,netakúlum og öllu því er minnti á höfnina. Skreytingar hjá starfsfólki og nefndinni vöktu mikla athygli fyrir smekkvísi og fegurð. Veislustjóri var Gísli Björgvinsson. Línudansinn var á sínum stað, söngur og flutt var gamanmál á milli atriða. Ítarleg greinargerð frá undirbúningi og framkvæmd blótsins fylgir fundargögnum
Kjaranefnd tók til starfa eftir síðasta aðalfund. Hún hefur unnið að þeim málum sem henni voru falin. Gögn frá nefndinni liggja hér frammi á borðum ykkar þar sem niðurstöður nefndarinnar á yfirstandandi ári skipta ykkur fjárhagslegu og félagslegu máli. Ítarleg skýrsla frá nefndinni fylgir fundargögnum.
Spilamennskan er hér í hávegum höfð. Heilsuefling er mikil í spilamennskunni því þar nýtur einbeiting og hugarleikfimi sín að öllu leyti. Að brjóta heilann um næstu gjöf er á við góðan sundsprett bara tekinn með öðrum hætti.
Bingóið er alltaf á sínum stað og nýtur vinsælda. Pílan, billjard og boccia allt er þetta fyrir hendi í dagskrá félagsins.
Menn sem eru félagar í félagi eldri borgara eru með útskurð í gamla íþróttahúsinu við Lækjarskóla.
Þá gengur stór hópur alla daga í Kaplakrika. Sundleikfimin í Ásvallalaug og leikfimin í Bjarkarhúsi eru vel sótt.
Í Bókmenntaklúbbinn mætir fjöldinn allur í hverri viku. Félagar klúbbsins sögðu frá nýútkomnum bókum sem þeir höfðu lesið. Í bókmenntaklúbbnum er boðið upp á fyrirlestra , um ljóðamál, hugleiðingar, frásagnir af eigin reynslu og umfjöllun um einstaklinga. Þar er valinn maður í hverju rúmi. Ítarleg skýrsla frá bókmenntaklúbbnum fylgir fundargögnum.
Uppstillingarnefndin mun fara yfir vinnu sína hér á eftir.
Hafnarfjarðarbær á í samstarfi við Janus Guðlaugsson og félag eldri borgara um heilsueflingu sem byggir á því að auka styrk og þá betra líf þeirra sem eldri eru með þolþjálfun, styrktaræfingum og fræðslu um næringu. Kynningarfundur Janusar á efninu sló öll met á mannfjölda hér innanhúss þann 25. janúar s .l Það má líka geta þess að skráning í heilsueflinguna var svo mikil að skipta þurfti í tvo hópa sem hver er áætlaður 160 manns. Þessu átaki fylgdi hærri frístundastyrkur fyrir eldri borgara frá Hafnarfjarðarbæ. Styrkinn má nota í þær íþróttir sem hver og einn velur sér.
Stofnendur félagsins mátu stöðu Hafnfirðinga með því að skipta þeim í þrjá aldurhópa, unga, mið og þá sem eldri voru. Eldra fólki í dag er svo aftur skipt í tvo aldurshópa þar sem talað er um yngri og eldri borgara.
Ég get sagt ykkur það til gamans að fyrir 30 árum var ég í félagi þar sem 70 ára og eldri greiddu ekki félagsgjöld. Hér í dag kynnum við með stolti tillögu að lagabreytingu þar sem lagt er til að sett verði í lög félagsins að 90 ára og eldri greiði ekki félagsgjöld. Þetta segir mikið um ástand og lífsmöguleika nútímafólks.
Árið hefur einkennst að undirbúningi fyrir 50 ára afmæli félagsins sem nálgast óðfluga. Afmælisnefnd var stofnuð en í henni sitja meðal annarra fyrrverandi formenn félagsins, þau Jón Kr. Óskarsson, Kjartan Jóhannsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Sigurður Hallgrímsson. Frá stofnun hafa starfað hér 9 formenn og eru 5 þeirra á lífi. Þeir sem látnir eru eru: Einar Sveinsson, Jóhann Þorsteinsson, Sverrir Magnússon og Lára Jónsdóttir.
Hugað var að mörgu vegna merkra tímamóta. Endurskoðun á lögum félagsins var það fyrsta sem farið var í þar var meðal annarra breytinga sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi orðið“ aldraðir“ tekið út úr lagagreinum þar sem það var viðhaft og sett í stað „eldri borgarar.“
Endurskoðun á heimasíðu félagsins var sett í gang sem og uppbygging facebook síðu. Ákveðið var að breyta merki félagsins eins og þið sjáið en þá eru liðin 25 ár frá því eldra merkið var tekið í notkun.
Útbúin var nýr hátíðarfáni, borðfánar og nýir útifánar og skarta þeir allir hinu nýja merki. Félagatalið hefur verið samkeyrt við þjóðskrá.
Þá verður stefnt að handavinnusýningu á afmælisárinu en á hana geta félagsmenn sett þau handverk sem þau hafa skapað á lífsleiðinni. Dagsetning liggur ekki alveg fyrir en verður auglýst vel þegar þar að kemur.
Samþykkt hefur verið að stofna Styrktarsjóð fyrir félagstarfið.
Undirbúningur fyrir afmælishátíðina er mjög vandaður og metnaðarfullur eins og dagskráin ber með sér. Miðasalan er opin alla daga til og með 21. mars eins og stendur í auglýsingunni. Við þurfum að vita það með 5 daga fyrirvara hversu margir mæta. Miðar verða ekki seldir við innganginn.
Hafnfirskir listamenn munu sjá um veislustjórn og skemmtiatriði.
Ég hef verið í formennsku hér í tvö ár. Þau ár hafa verið mér lærdómsrík og einstaklega ánægjuleg. Því er mér nú efst í huga þakklæti til ykkar allra.
Það er tilhlökkun að ganga til glæsilegar afmælishátíðar með svo öflugu hugmyndarríku og flottu fólki.
Ég hvet ykkur öll til að mæta og taka með ykkur gesti.
Til heiðurs þeim sem á undan eru gengnir skulum við eiga saman gleðilegan dag.
Afmælishátíð félags eldri borgara í Hafnarfirði er hátíð allra Hafnfirðinga.
Valgerður Sigurðardóttir
Formaður FEBH