SKÝRSLA STJÓRNAR 2016
Eftir nákvæmlega 10 daga eða þann 26. mars n.k.verður félag eldri borgara í Hafnarfirði komið á fimmtugasta aldursár sitt. Félagið er elsta félag á landinu sem tileinkar starfsemina þeim sem eldri eru og farnir eru að huga að þeim tíma þegar fer að draga úr þátttöku í atvinnulífinu og njóta daganna við annarskonar störf og leik. Ferskleiki, reynsla og þekking félagsmanna og þeirra sem að starfinu koma er einkennandi fyrir öflugt og síungt hugarfar er ríkir innan félagsins. Hafnarfjarðarbær hefur verið sterkur bakhjarl í forystu málaflokksins svo eftir hefur verið tekið víða og verið öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni. Bæjarfélagið sér meðal annars um allan rekstur á félagsmiðstöðinni Hraunseli, mannahald og greiðir húsaleigu. Í Hafnarfirði bjuggu á árinu 2016, 28.189 íbúar og voru þar af 2.851 einstaklingur eldri en 67 ára og fer fjölgandi með hverju ári. Það er því að mörgu að hyggja í þeim stóra málaflokki sem málefni eldri borgara eru.
Innan félagsins eru nú um 1550 félagsmenn en á starfsárinu gengu inn 158 einstaklingar. Það eru ekki margir sem ganga til liðs við félagið fljótlega eftir 60 ára afmæli sitt en þeim fer hægt fjölgandi.
Stjórn félagsins hefur komið saman tíu sinnum á árinu en hún fundar 1. miðvikudag í mánuði. Þá hefur verið sjö sinnum samráðsfundur með starfsmönnum bæjarins og tvisvar hefur verið fundað með Öldungaráði. Með nefndum félagsins hefur stjórnin fundað tvisvar.
Stuttu eftir síðasta aðalfund hittum við úr stjórninni formenn félaganna í kjördæminu til að sjá þá og heyra hvað væri að gerast hjá þeim og kynna starfsemi okkar. Annar fundur var svo haldinn í sama hópi s.l. haust en slíkir fundir þykja góður þáttur til að styrkja samstarf innan félaganna. Það má geta þess að Hafnfirðingar höfðu forystu um samstarfið í janúar 2016.
Messa tileinkuð eldri borgurum var haldin í Víðistaðakirkju á uppstigningardag og fluttu fulltrúar hópsins ritningagreinar.
Meðfram starfinu var sífellt verið með hugann við það sem betur má fara og annað sem þarfnast endurnýjunar og verður að vera í lagi til þess að halda úti félagsstarfi.
Kristín Jónsdóttir íslenskufræðingur koma að máli við stjórnina í sambandi við fornsögunámskeið, Laxdælu og/eða Egilssögu. Námskeiðið var nýlunda í félagsstarfinu og var haldið fyrir síðustu áramót og var vel sótt. Þegar erindi hennar kom inn til stjórnarinnar var ákveðið að bregðast við þar sem námskeiðin voru mörg fyrir og líka til að forðast árekstra svo að enginn bæri skaðan hlut frá borði. Ákveðið var að kaupa skjávarpa, tjald og hátalarakerfi en á þann hátt gætu báðir salirnir verið í notkun á sama tíma og húsnæðið þannig betur nýtt. Hátalarakerfið sem keypt var er líka hægt að nota utandyra og er tilvalið fyrir flutning ræðu eða tónlistar ef einhvern tíma pylsur verða settar á grillið í góðu veðri eða önnur útiskemmtun viðhöfð. Möguleikarnir eru fyrir hendi.
Í júlímánuði var vakin enn frekari athygli á verkefninu „brúkum bekki.“ Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni hreyfingu eldri borgara. Bekkir hafa verið settir upp með 250-300 metra millibili á margar gönguleiðir í bænum og njóta mikilla vinsælda. Frekari kynnig á verkefninu verður sett á heimasíðu félagsins og facebooksíðuna við fyrsta tækifæri en tæknimál hafa staðið í vegi fyrir birtingu myndar sem sýnir staðsetningu bekkjanna.
Eftir sumarfrí var farið að huga að dagskrá vetrarins sem kom út í október s.l. Nú verður aftur móti dagskráin send út fyrir sumarfrí og er útkoma hennar áætluð í maí. Með þeim hætti eiga allir að hafa dagskrána á hreinu þegar hún hefst næsta haust.
Í september heimsóttu okkur 107 félagar frá Selfossi og var þeim boðin leiðsögn um bæinn undir stjórn Ingvars Viktorssonar. Að lokinni skemmtilegri ferð var drukkið kaffi í Hraunseli og urðu gestirnir seinþreyttir á að ræða glæsileg húsakynni og góðar móttökur. Gaflarakórinn söng nokkur lög. Selfyssingarnir bíða eftir tækifæri til að taka á móti okkur til að gjalda gestrisnina.
Við færðum formanni félagsins bókina Dýrmæt ár sem Hörður heitinn Zóphaníasson tók saman í tilefni af fjörutíu ára afmæli félagsins. Áður hafði verið ákveðið að nýta bókina sem inniheldur upplýsingar um allt það sem félagið hefur staðið fyrir til gjafa til þeirra sem sækja okkur heim.
Við heimsóttum séra Kjartan Jónsson í Ástjarnarsókn og kom hann síðan sem gestur á stjórnarfund. Hann hefur staðið fyrir fundum fyrir eldri borgara á Völlunum á miðvikudögum og hefur það gefist mjög vel. Samstarf við séra Kjartan er ánægjuleg viðbót við félagsstarfið.
Á borð stjórnar hafa borist hin ýmsu mál enda eðlilegt í svo stóru félagi þar sem svo mikið er um að vera eins og raun ber vitni. Oftar en ekki hafa verið til umræðu matarmálin. Mikil óánægja hefur verið með matinn í mötuneytum á Sólvangi 1 og Hjallabraut 33. Stjórnin hefur haft af þessu áhyggjur og fylgt málinu eftir með því að borða í mötuneytinu ásamt starfsmönnum bæjarins sem koma að starfinu. Í kjölfarið var sett á laggirnar fagráð til að leita leiða til lausnar vandanum en í ráðinu situr m.a. einn fulltrúi frá fyrirtækinu sem selur matinn. Nú nýlega var ráðinn nýr kokkur sem eldar eingöngu fyrir eldri borgara hjá fyrirtækinu. Hann er kallaður Jonni og er kenndur við Kænuna sem flest okkar ef ekki öll þekkjum af einu góðu. Maturinn hefur breyst í hans höndum og vonast félagið eindregið til þess að með komu Jonna verði góður matur framvegis á borðum eldri borgara í bænum. Matur er ekki bara nýttur til líkamlegrar næringar heldur líka andlegrar og félagslegrar.
Félagið hefur þrýst á byggingu hjúkrunarheimilis í bænum og nú er ákveðið að byggja við hjúkrunarheimilið Sólvang og þá fjölgar rýmum um tvö, en samhliða er verið að lagfæra húsið svo það uppfylli núverandi kröfur um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Áætlað er að nýi Sólvangur verði tekinn í notkun í ágúst á næsta ári. Það má alltaf bæta um betur og vonandi verður ekki langt þangað til við sjáum annað hjúkrunarheimili rísa innan bæjarlandsins.
Til að njóta þjónustu tækninnar, hefur skjár hefur verið settur upp í anddyrinu sem ætlaður er til að auglýsa það sem fram fer í félagsstarfinu hverju sinni. Þegar hann verður tekinn í notkun hverfa allar auglýsingar sem nú eru á pappír og fara á skjáinn. Heimasíða félagsins hefur verið uppfærð og sett hefur verið upp facebooksíða. Tölvunotkun hefur aukist til muna hjá félagsmönnum og eru allflestir komnir með netfang. En það er líka hugsað til þeirra sem ekki eru með tölvu og eru viðburðir auglýstir í vikudagskránni og svo í Fjarðarpóstinum undir liðnum heldri borgarar.
Nefndir félagsins eru mest áberandi þátturinn í félagsstarfinu. Innan þeirra starfa hátt í 70 manns. Allir tilbúnir að leggja sitt að mörkum til að gera gott starf enn betra.
Félagið leggur mikla áherslu á hreyfingu eldri borgara. Boðið er upp á líkamsrækt, göngur, spil,dans,söng og flottan kór. Við erum með púttaðstöðu hjá golfklúbbnum Keili og völl við Haukahúsið. Leikfimi fer fram í Bjarkarhúsi, sundleikfimi í Ásvallalaug, tréskurður í gamla Lækjarskóla og göngur í Kaplakrika alla morgna . Bókasafn og sundiðkun eru í boði Hafnarfjarðarbæjar.
Pútthópurinn sér um púttæfingar alla mivikudaga kl. 10.00 Þar taka þátt 10-15 manns. Æfingapúttmót eru haldin einu sinni í mánuði. Alvöru mót eru haldin fyrir jól og páska með verðlaunum og glaðningi fyrir alla.
Fundir bókmenntaklúbbsins eru hálfsmánaðarlega á miðvikudögum kl. 10-11. Fyrirlesarar á fundum eru ýmist utanaðkomandi eða félagsmenn sjálfir. Fundarsókn er mjög góð oftast um 35 – 45 manns.
Góðir gestir frá árinu 2016 voru m.a.
- Guðrún Egilsson en hún las upp úr bók sinni „Tvístirni“
- Egill Friðleifsson og Sigríður Björnsdóttir lásu upp úr æviminningum Sigurðar Þorlákssonar trésmiðs í Hafnarfirði, handskrifuðu fjölriti sem hann gerði fyrir afkomendur sína. Einstök bók er óhætt að segja án þess að gera upp á milli bókanna.
- Óttar Guðmundson geðlæknir fjallaði um bók sína „Frygð og fornar hetjur“ og
- Ásdís Egilsdóttir prófessor emeritus flutti erindi um dýrlinga, sem tengdust jólum og voru vegsamaðir á miðöldum á Íslandi. Bókmenntaklúbburinn er með spennandi og fróðlega fundi framundan.
Þorrablótsnefndin stóð fyrir þorrablóti 27. janúar s.l. Þema blótsins var Hellisgerði. Voru sagðar álfasögur og rifjaðar upp minningar frá bernskuárum. Blótið var skemmtilegt. Glæsilegir vinningar voru í happdrættinu en þeir voru sjötíu eins og aldurinn er á þeim sem bæjarstjórn býður til veislu og kynnir þar það sem er í boði hjá bænum fólki til ánægju og hagsbóta.
Dansnefndin hefur lagt allt að mörkum til að drífa Hafnfirðinga út á dansgólfið. Það hefur gengið vel en er eitthvað að taka breytingum núna í seinni tíð þannig að það er tap á böllunum. Ekki ætla þau alveg að gefa fjörið frá sér í nefndinni og eru allir þeir sem hafa gaman að því að dansa hvattir til að fá sér snúning. Þeir sjá ekki eftir því.
Spilin standa alltaf fyrir sínu og er boðið upp á bingó, vist og bridge. Það láta engir spilamenn slík boð fram hjá sér fara. Spilamennskuna sækja margir frá nágrannasveitarfélögunum.
Línudansinn er vel sóttur enda hörkulið á ferð. Það er alltaf pláss fyrir fleiri. Þau eru flott , keppa til verðlauna og njóta þess verulega að dansa.
Qi gong búa nú við góða leiðsögn. Þau eru um 30 sem taka þátt. Þeim hefur fækkað sem yngri eru og hafa farið yfir í Zumba eða dansleikfimina sem fyllir salinn í hvert skipti sem tími er hjá þeim.
Laganefndin hefur fundað og farið vel yfir lög félagsins og leggur nú til þær lagabreytingar sem bornar verða upp á fundinum.
Gönguhópurinn er í góðum gír. Þar er fjölmenn þátttaka 40-60 manns. Þau gera sér dagamun í göngunum bæði um jól og páska. Þau fóru í ferð í júní s.l um Suðurland fóru til Víkur og skoðuðu Reynisfjöru og borðuðu á Hótel Kötlu.
Eins var það með ferðanefndina en hún fékk sér að borða á Fjörukránni eftir haustlitaferð undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, vel lukkuð ferð. Áður eða í lok júní höfðu þau farið á Suðurnesin með fulla stóra rútu og skoðuðu m.a. safn tónlistarmannsins Rúnars Júlíussonar. Nú er spennandi ferð framundan en hún er til Pétursborgar.
Menn láta vel af sér í íþróttanefndinni þar sem þar gengur allt vel.
Gaflarakórinn er öflugur kór. Hann hélt vortónleika ásamt Flensborgarkórnum. Söng við messu, fór eins og fleiri í haustferð og nutu náttúrunnar og snæddu að Básum í Ölfusi. Sungu hér í Hraunseli á jólafundinum, tóku þátt í kóramóti og glöddu marga með söng sínum víða um bæinn og í nágrannasveitarfélögunum fyrir jólin.
Skemmtinefndin hefur undirbúið opið hús ásamt þeim sem eru í nefndinni. Opið hús er flesta fimmtudaga og er þar boðið upp á mjög fjölbreytta dagskrá. Dagskráin inniheldur margskonar fræðslu, söng og skemmtanir. Hugmyndir nefndarinnar eru óþrjótandi til að gera dagskránna áhugaverða flesta fimmtudaga.
Uppstillingarnefndin mun fara yfir vinnu sína hér á eftir.
Kjaranefndin kom aldrei saman.
Nefndirnar hafa skilað skýrslum og verða þær færðar inn í bækur félagsins.
Yfirstandandi starfsár mun einkennast að undirbúningi fyrir 50 ára afmæli félagsins sem verður þann 26. mars 2018
Starfsemin hér byggir á þeim góða anda sem upphaflega var stofnað til og endurspeglar áhugann og þá ómældu gleði sem býr meðal ykkar. Þakklæti er mér efst í huga. Það fer margt í gegnum hugann þegar liðið starfsár er rifjað upp og sett á skýrslu. Það hefur verið mér ómetanleg ánægja að fá tækifæri til að vinna í þessum góða hópi sem þið myndið. Án ykkar, starfsfólksins og félagsmanna væri ekki hægt fyrir Hafnarfjörð að bjóða eldri borgurum í bænum upp á svo fróðlegt, heilsusamlegt og skemmtilegt líf á ljúfu ævikvöldi. Hagsmunir ykkar eru í forgrunni.
Valgerður Sigurðardóttir