LEB blaðið í rafrænni útgáfu meðfylgjandi fréttabréfi í tölvupósti til félagsmanna

leb

                                                 Blöð liggja frammi í Hraunseli

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að LEB blaðið er sent í rafrænu formi til félagsmanna FEBH.  Með því er stórt skref stigið í rafrænum samskiptum Félags eldri borgara í Hafnarfirði við félagsfólk en blaðið er meðfylgjandi í pósti með fréttabréfi til félagsmanna.

Þegar ákveðið var að auka valkost félagsskírteina FEBH með útgáfu stafrænna skírteina var netfangaskrá félaga tekin til yfirferðar og leiðréttingar samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir. Rétt netfangaskrá skiptir sköpum í rafrænum samskiptum. 

Félagið sem er skammstafað FEBH er elsta félag á landinu með það að markmiði að gæta hagsmuna eldra fólks. Fyrsta félag eldra fólks á landinu til að gefa út stafræn félagsskírteini, spila Bridge á netinu og fyrst til að kynna starfsemina á heimasíðu sinni febh.is á íslensku, ensku og pólsku.

Starfsemi Félags eldri borgara í Hafnarfirði er sjálfsprottin. Félagsfólk kemur með hugmyndir að skemmtilegri og fjölbreyttri afþreyingu og fylgir henni áfram í gegnum nefnd en 18 nefndir eru starfandi innan félagsins og fer þeim hratt fjölgandi. Dagskráin verður til og er afurð nefndarstarfsins og endurspeglar fjölbreytileikann, samtímann og gleðina en eitt veigamesta verkefni okkar allra er að koma í veg fyrir einmanaleika og einangrun.

Kynslóðin sem nú er að komast á eftirlaunaaldur gerir meiri kröfur til afþreyingar en sú sem á undan fór þar sem viðmiðin til hins daglega lífs byggja á því sem fólk þekkir.

  Þeir, sem ganga í félagið greiða innskráningargjald við inngöngu, sem jafngildir upphæð félagsgjalds yfirstandandi árs. Þetta þýðir að sá sem gengur í félagið greiðir fullt gjald yfirstandandi árs hvenær svo sem ársins viðkomandi gengur í félagið. Félagar og þeir sem ganga til liðs við félagið fá sent stafrænt félagsskírteini í símann þegar félagsgjald ársins 2024 sem er 3.000 krónur hefur verið greitt. Þeir sem vilja frekar fá plastskírteini geta nálgast það á skrifstofunni en hún er opin alla virka daga frá 08.00-16.00. Stjórn FEBH hvetur félagsfólk til að sýna félagsskírteini þegar verslað er og spyrja um afslátt.

Við hvetjum alla til að fylgjast vel með og setja like á Facebook síðu Félags eldri borgara í Hafnarfirði en dagskráin er birt þar og á heimasíðu félagsins febh.is      

Nú bíður okkar sumar og sól, starfsemi FEBH verður því lokuð frá 10. júlí – 14. ágúst.

Stjórn Félags eldri borgara í Hafnarfirði óskar þér og fjölskyldu þinni gleðilegs sumars með þökkum fyrir samstarfið á liðnum vetri. Hlökkum til að hitta þig í haust.

Með kærri kveðju,

Fyrir hönd stjórnar FEBH

Valgerður Sigurðardóttir, formaður

Deila frétt