Fréttabréf

Fréttabréf september 2022

Kæri félagsmaður

Hér sendum við þér annað fréttabréf félagsins á árinu 2022.  Samskiptum við þig fjölgar af félagsins hálfu þar sem tölvupóstföng félagsmanna eru komin í það horf að við getum nýtt þennan samskiptamáta betur.  Fleiri og fleiri nýta sér tölvutæknina sem gerir aðgengi okkar allra léttara og þægilegra. Í dag eru félagsmenn 1923.
Ráðstefna um húsnæðismál eldra fólks sem haldin var á vegum FEBH og Öldungaráðs Hafnarfjarðar  í mars sl. var vel sótt. Samstarf félagsins og ráðsins er mjög náið þar sem 3 af 7 ráðsmönnum koma frá FEBH en þannig hefur það verið frá í nóvember 2018. Fundargerðir Öldungaráðs Hafnarfjarðar er hægt að nálgast á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.

Dagskráin.

Á haustdögum gefur Félag eldri borgara í Hafnarfirði út dagskrá fyrir komandi vetur. Þannig hefur það verið um langt árabil og er engin breyting þar á.Vegna lausnamiðaðrar og bættrar nýtingar á glæsilegu húsnæði félagsins aukast möguleikar á fjölbreyttari og skemmtilegri dagská. Hefðbundin dagskrá hefur verið sett upp og send með fréttabréfinu en allir aðrir viðburðir utan hennar eru auglýstir sérstaklega á heimasíðunni febh.is og Facebooksíðu Félags eldri borgara í Hafnarfirði.

Ný námskeið á dagskrá.

Námskeið í afritun og varðveislu hljóðrita, kvikmynda og í þáttagerð.

Leiðbeinandi verður Halldór Árni Sveinsson en hann hefur tekið upp og kvikmyndað frá lífi og starfi Hafnfirðinga frá árinu 1982. Námskeið í afritun kvikmynda verður haldið á mánudögum  frá kl.13.00-15.00 og í þáttagerð á fimmtudögum kl.13.00 -15.00. Námskeiðin verða í Hraunseli, Flatahrauni 3. Hámarksþátttaka á námskeiði er 10 manns. Upplýsingar og skráning fer fram í Hraunseli og í síma 555-0142.

Brúkum bekki.

Á vorfundi Öldungaráðs Hafnarfjarðar 5. maí 2012 var undirritað samkomulag um verkefnið, „Brúkum bekki“, milli Öldungaráðs, FEBH, Félag sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbæjar. Samkomulagið hljóðaði upp á að settir yrðu upp bekkir með 250 til 300 m. millibili . Markmiðið er að stuðla að aukinni hreyfingu eldri borgara og gera þeim kleift að fara út að ganga og geta sest niður á bekki og þannig aukið á gæði hreyfingar í sínu nærumhverfi. Nýlega gaf fyrirtækið Ásmegin ehf. sem er í eigu Kristins Magnússonar sjúkraþjálfara 12 bekki sem settir hafa verið í kringum Ástjörn. Nú eru hátt í 60  bekkir merktir verkefninu sem gjöf frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum á merktum gönguleiðum þar sem eru 250 m til 300 m á milli bekkja auk fjölda bekkja bæjarins og bekkja á biðstöðum strætó sem gera gönguleiðirnar víðtækari um bæinn. Útbúið var kort af bænum sem sýnir allar gönguleiðir þar sem bekkir eru með 250 m til 300 m á milli bekkja. Hægt er að segja að í Hafnarfirði er stutt í næsta bekk.

Afsláttarkort.

Þeir félagsmenn sem hafa greitt árgjaldið sem er 3.000 kr. geta komið á skrifstofuna og sótt skírteini sitt. Skírteinin sem gefin eru út í ár gilda til 15. febrúar 2023. Stjórnin hvetur þig eindregið til að nálgast félagsskírteinið sem jafnframt er afsláttarkort. Rafræn afsláttarbók er á heimasíðu félagsins febh.is. Þá er fjöldi fyrirtækja tilbúin að veita afslátt við framvísun félagsskírteinis.

Stjórnin þakkar þér kæri félagsmaður stuðning við félagið með félagsaðild og þátttöku þinni í starfinu. 

Við viljum vekja athygli þína á því að alla virka daga frá 08.00-16.00 er hægt að líta við í kaffi og lesa dagblöðin, hvortveggja í boði félagsins. Allar nánari upplýsingar um starfsemina er að finna á heimasíðu félagsins www.febh.is – Á Facebooksíðu Félags eldri borgara í Hafnarfirði og í síma 5550142. 

Fyrir hönd Félags eldri borgara í Hafnarfirði
Valgerður Sigurðardóttir formaður

Deila frétt