Frá Tryggingarstofnun

Opinn fundur um upphaf töku ellilífeyris 25. janúar nk. kl. 16.00

TR boðar til opins fræðslufundar um upphaf töku ellilífeyris miðvikudaginn 25. janúar nk. kl. 16.00 – 18.00 í Hlíðasmára 11, Kópavogi. Þar verður kynning á umsóknarferlinu, skilyrðum fyrir töku ellilífeyris og upphæðum greiðslna. Eftir kynningu verða sérfræðingar til svara. Kaffi og kleinur í boði. Fundinum verður einnig streymt. Öll velkomin. Skráning hér.

Umboðsmaður viðskiptavina – ný þjónusta hjá TR

Umboðsmaður viðskiptavina er ný staða sem hefur verið innleidd hjá TR. Það er Jóhanna Ósk Baldvinsdóttir sem gegnir þessari stöðu en hún hefur starfað hjá TR í sjö ár og þekkir því vel til almannatrygginga. Hún mun leiðbeina lífeyrisþegum um meðferð mála hjá stofnuninni sem og þeim sem telja sig ekki hafa fengið efnislega umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög eða reglur. Netfangið hennar er umbodsmadur@tr.is 

Umboðsmaður veitir ráðgjöf og aðstoð um endurupptöku og kæruleiðir. Hann skal vera hlutlaus þjónustuaðili fyrir lífeyrisþega og miðla upplýsingum til þeirra. Umboðsmaður stuðlar að bættum starfsháttum með það að leiðarljósi að jafnræði sé virt í hvívetna í stjórnsýslunni og meðferð mála fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Sjá nánar hér.

Nýtt fræðslumyndband um leyninúmer TR

Það er mikilvægt að gæta vel að öryggi viðkvæmra persónulegra upplýsinga sem eru varðveittar hjá TR. Við fylgjum ströngum öryggisreglum hvað það varðar og því er nauðsynlegt að sá/sú sem hringir til TR og óskar eftir upplýsingum um málefni einstaklings geti auðkennt sig með leyninúmeri. Í myndbandi sem við gáfum út í byrjun janúar eru einfaldar leiðbeiningar um hvernig finna má leyninúmerið á Mínum síðum TR. Myndbandið er með íslensku tali og texta auk þess sem það er einnig birt með texta á ensku og pólsku. Myndbandið má sjá hér.

Samskiptasvið – nýtt svið

Samskiptasvið er nýtt svið hjá Tryggingastofnun.  Á sviðinu starfa þær Sigrún Jónsdóttir sviðsstjóri, Inga Rós Gunnarsdóttir verkefnastjóri fyrir vefsíðu og samfélagsmiðla og Ásta Júlía Arnardóttir verkefnastjóri fyrir fræðslu og kynninga. Á sviðinu eru fjölþætt verkefni samskipta og miðlunar þar sem leiðbeininga- og upplýsingaskylda er mikilvægur þáttur sem ávallt ber að hafa í forgrunni.

Við hvetjum þig til að framsenda fréttabréfið okkar til félagsfólks í þínu félagi eða samtökum. Það er okkur mikið í mun að koma upplýsingum um starfsemina sem víðast.

Deila frétt